26.4.2007 | 21:06
Núll komma ekki neitt
Áður hef ég skrifað grein um nám í Leiðsöguskóla Íslands og baráttu leiðsögumanna" til þess að fá starfsheiti sitt löggilt. Þeir sem þekkja lítið sem ekkert til starfa leiðsögumanna hættir til að rugla því saman við störf fararstjóra. Flestir sem hafa farið í pakkaferðir út fyrir landsteinana hafa kynnst fararstjórum. Stundum eru fararstjórar með í för eða þeir taka á móti manni á áfangastað. Þetta er fólkið sem aðstoðar mann við að finna réttu rútuna og koma manni á hótel. Farastjórar aðstoða við leigu á bílaleigubíl eða kaup á skoðunarferðum og í þá er kallað ef einhver veikist eða verður fyrir óhappi. Leiðsögumaður er aftur á móti sá sem sér um að upplýsa ferðamenn um land og þjóð í skoðunarferðum. Hér heima á Íslandi gegnir leiðsögumaður oft báðum þessum störfum samtímis. Hann er sá sem tekur á móti erlendu ferðamönnunum í Leifsstöð við komuna til landsins. Leiðsögumaðurinn er því andlit ferðaskrifstofunnar sem hefur selt Íslandsferð. Með það í huga skyldi maður ætla að ferðaskrifstofur kappkosti að ráða hæfa leiðsögumenn til starfa og sömuleiðis að ferðaskrifstofur undirbúi ferðir sínar vandlega með sínum leiðsögumönnum áður en þeir eru sendir í dýrar ferðir með erlenda ferðamenn. Maður skyldi ætla að það væri lágmarkskrafa kaupanda ferðar að leiðsögumaður hafi ýtarlegar upplýsingar um ferðina sem á að fara og þá sömu upplýsingar og ferðamaðurinn hefur undir höndum. Á því er því miður stundum misbrestur. Ferðamanni er seld ferð og hann hefur sínar upplýsingar en leiðsögumaðurinn fær stundum aðrar upplýsingar og þá strax er hætta á vandræðum. Vandræði er eitthvað sem ferðaskrifstofur gera ekki ráð fyrir og í þeirra augum er það oftast eitthvað sem er leiðsögumanninum að kenna og því hans vandamál að leysa úr hlutunum. Í leiðsögumenn er bara hringt eftir þörfum og starfsfólk á ferðaskrifstofunum þekkir oftast ekki leiðsögumenn í sjón. Samskipti við leiðsögumenn fara oftast fram í gegnum síma eða með netpósti. Leiðsögumenn teljast ekki til starfsfólks ferðaskrifstofa. Við leiðsögumenn eru ekki gerðir ráðningarsamningar. Ef ráðningarsamningar við starfsfólk ferðaskrifstofa eru skoðaðir þá kemur í ljós að núll, komma, ekki neitt, prósent af þeim ráðningarsamningum tilheyra leiðsögumönnum. Ekki einn einasti leiðsögumaður á landinu hefur skriflegan ráðningarsamning. Hvers vegna skyldi það vera?
Fyrir um það bil 40 árum voru skoðunarferðir með erlenda ferðamenn skipulagðar í fyrsta sinn. Þessar fyrstu ferðir voru farnar um hásumar og ekki ýkja margar. Mestmegnis kennarar í sumarfríi tóku að sér leiðsögn í þessum ferðum og sömdu sjálfir um launin fyrir hverja ferð. En fjöldi ferðamanna óx og ferðaskrifstofum sem seldu útlendingum skoðunarferðir fjölgaði. Nauðsyn bar til að gera alvöru samninga um laun og kjör leiðsögumanna og fór svo að samið var við þá á áttunda áratugnum í fyrsta sinn. Á þeim tíma voru skoðunarferðir einskorðaðar við sumarið og leiðsögn því aukastarf eða sumarvinna og samningar miðuðust við það. Samið var um laun fyrir hverja ferð eða lausamennsku. Síðan þetta var hefur ferðamannatímabilið lengst og nú er svo komið að skoðunarferðir fara fram allt árið um kring en samningar við leiðsögumenn hafa lítið breyst. Enginn leiðsögumaður hefur fengið skriflegan ráðningarsamning. Leiðsögumenn eru á tímakaupi og í lausamennsku, jafnvel ár eftir ár hjá sama fyrirtæki. Ekkert starfsöryggi, engin föst mánaðarlaun, enginn fastur vinnutími og ekkert sumarfrí. Leiðsögumenn hafa lág laun og í þeim er allt innifalið, orlof, orlofsuppbót, desemberuppbót, bóka-og fatapeningar og sv.fr. Leiðsögumenn þurfa sjálfir að bera kostnað af bókum og kortum sem þeir nota í ferðum, vegna þess að það hefur ekki tíðkast að ferðaskrifstofur séu að leggja til ferða dýrar bækur um fugla, gróður, jarðfræði eða annað. Margir leiðsögumenn sem vilja hafa leiðsögn að lifibrauði lenda í því að vinna meira og minna allt sumarið, 7 daga í viku, 11 tíma á dag, þ.e. þeir fá greitt fyrir 11 stundir á dag í hringferðum þó þeir séu í raun til taks fyrir ferðamennina allan sólarhringinn. Á haustin fækkar ferðamönnum og þá fá flestir leiðsögumenn að taka pokann sinn, því lítil eða engin vinna býðst. Kannski ein og ein dagsferð á stangli, oftast um helgar og svo auðvitað líka jóladagana, gamlaárskvöld og nýjársdag. Stundum dettur manni í hug hvernig útgerðarmönnum gengi að manna dagróðrarbáta ef þeir ætluðu bara að hringja eftir mönnum þegar útlit væri fyrir fiskirí og borga mönnum tímakaup. Á kreppuárunum var algengt að menn fengju vinnu einn og einn dag en lifðu svo á bónbjörgum þess á milli. Finnst ferðaskrifstofum það virkilega við hæfi að leiðsögumenn í starfi hjá þeim njóti nánast engra réttinda. Í samningum leiðsögumanna og SAF og SA er getið um fastráðningu en ENGIN FERÐASKRIFSOFA hefur gert skriflegan ráðningarsamning við leiðsögumann. Eru þetta samráð hjá ferðaskrifstofunum? Ef einhver ferðaskrifstofa ætlar að halda því fram að hún hafi gert ráðningasamning við leiðsögumann þá er það ekki rétt. Ferðaskrifstofur hafa gert ráðningarsamning við leiðsögumenn sem hafa rútupróf og þá er samningurinn gerður vegna rútuprófsins en ekki vegna leiðsöguprófsins. Er ekki kominn tími til að koma leiðsögumönnum upp úr því að vera núll, komma ekki neitt. Koma leiðsögumönnum út úr þessu kreppuástandi og inn í nútímasamfélag með alvöru ráðningarsamningum. Ferðaskrifstofur sem telja að þær hafi ekki efni á því að hafa leiðsögumenn í föstu starfi eru eins og útgerð með fínan togara sem segðist ekki hafa efni á því að ráða áhöfn.
Ásta Óla Halldórsdóttir
leiðsögumaður ferðamanna"
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Leiðsöguskóli Íslands er til húsa í Menntaskólanum í Kópavogi (MK) en í honum fer fram sérhæft nám fyrir verðandi leiðsögumenn. Á heimasíðu skólans er hægt að nálgast upplýsingar um námið en þar segir meðal annars:
Umsækjendur þurfa að vera orðnir 21 árs við upphaf námsins. Þeir þurfa að hafa stúdentspróf eða sambærilegt nám að baki ásamt því að hafa mjög gott vald á einu erlendu tungumáli, auk íslensku. Nemendur þurfa að standast munnlegt inntökupróf í tungumáli að eigin vali áður en skólavist er heimiluð.
Skólinn fylgir nýrri námskrá útgefinni af menntamálaráðuneytinu árið 2004. Námið er viðurkennt af Félagi leiðsögumanna og lánshæft hjá LÍN.
Námið er samtals 37 einingar, 17 einingar í kjarna og 20 einingar á kjörsviði. Námsmatið byggist á skriflegum eða munnlegum verkefnum og prófum. Nemendur þurfa að fá a.m.k. sjö af tíu í einkunn í öllum greinum.
Á heimasíðu skólans er ekkert minnst á kostnað við leiðsögunámið, né hvort námið veiti einhver starfsréttindi að því loknu. Aðeins er sagt frá því að námið sé viðurkennt af Félagi leiðsögumanna og að það sé lánshæft hjá LÍN. Ekki er nefnt að skólinn rukki 105 þúsund krónur fyrir hvort misseri eða samtals 210 þúsund krónur fyrir skólaárið og er þá ótalinn með ýmis annar kostnaður sem liggur til dæmis í tölvunotkun og dýrum bókum. Ekki er nefnt að starfsheitið "leiðsögumaður ferðamanna" er ekki löggilt starfsheiti þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir leiðsögumanna ferðamanna til þess. Óneitanlega vaknar sú spurning hvort Leiðsöguskólinn sé bara að plokka peninga af fólki? Og ef svo er, í hvers þágu? Varla fyrir ferðaskrifstofurnar. Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) hafa ekki sýnt þessum skóla eða náminu sem þar fer fram mikinn áhuga. Í síðustu tilraun leiðsögumanna til að fá þetta starfsheiti löggilt var málið komið svo langt hjá einu af okkar ráðuneytum að leitað var eftir umsögnum frá ýmsum hagsmunaaðilum og þar á meðal var óskað eftir umsögn frá SAF. En viti menn, SAF sá sér ekki fært að styðja umsókn "leiðsögumanna" um löggildingu starfsheitisins og það leiddi til þess að ráðuneytið hafnaði umsókninni.
Enn einu sinni sækjast "leiðsögumenn ferðamanna" eftir viðurkenningu á starfsheiti sínu. Vonandi mun baráttan bera árangur á þessu nýja ári þar sem ný lög um ferðamál tóku gildi 1. janúar 2006 en í þeim lögum er bæði talað um fagmennsku og neytendavernd. Erlendir ferðamenn sem kaupa ferðir hér á landi af íslenskum ferðaskrifstofum gera ráð fyrir að þeir séu að kaupa ferð með löggiltum leiðsögumanni sem hafi sannanlega lokið sérnámi í leiðsögn ferðamanna og hafi fagmennsku til að bera í starfi og geti veitt réttar og óhlutdrægar upplýsingar um land og þjóð. Fáist löggilding starfsheitisins ekki nú á vorþingi þá held ég að þeir sem hafa verið að hugsa um leiðsögunám ættu að hugsa sig um tvisvar áður en þeir láta MK plokka af sér háar fjárhæðir og/eða steypa sér í skuldir hjá LÍN til að mennta sig í Leiðsöguskóla Íslands.
Höfundur er leiðsögumaður ferðamanna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)